Fundar með öllum leikmönnum Everton

Sam Allardyce.
Sam Allardyce. AFP

Sam Allardyce, nýráðinn knattspyrnustjóri Everton, ætlar að funda sérstaklega með hverjum einasta manni í sínum leikmannahópi á næstu dögum og fá á hreint hverjir vilja taka þátt í framtíðarplönum sínum og félagsins.

„Ef leikmennirnir eru nægilega hreinskilnir og heiðarlegir munu þeir segja mér hvort þeir vilji vera eða fara. Ef einhverjir vilja bíða og sjá til hvernig gengur þar til í janúar, þá tek ég á því. Ég vil engan hér sem vill ekki  vera hér," sagði Allardyce við The Guardian.

„Sem stendur hef ég mestan áhuga á að bæta markaskorara við hópinn. Dominic Calvert-Lewin hefur staðið sig vel og Oumar Niasse hefur skorað nokkur mörk en það erfiðasta er að fá menn sem skora mörk. Vonandi get ég bætt einhverjum slíkum við hópinn, annars verðum við að reyna að fá meira út úr Sandro," bætti Allardyce við.

„Þegar allir eru heilir er 31 leikmaður í hópnum og ef ég kaupi mann þarf ég mögulega að selja menn í staðinn eða hreyfa hópinn til. Ég vil ekki vera með bakið upp við vegg í janúar. Ég vil að leikmenn liðsins sýni mér að ég þurfi ekki endilega að kaupa neinn og að við verðum í lagi það sem eftir er tímabilsins. Þá myndi styrkingin vera aðalmálið næsta sumar. Það er erfiðast og um leið dýrast að ná í nýja leikmenn í janúar," sagði Allardyce.

Gylfi Þór Sigurðsson og samherjar í Everton eru komnir í 11. sæti deildarinnar eftir að hafa fengið sjö stig í síðustu þremur leikjum. Þeir sækja Newcastle heim annað kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert