Gylfi fær ekki jólaveislu

Sam Allardyce.
Sam Allardyce. AFP

Sam Allardyce, knattspyrnustjóri Everton, hefur tilkynnt leikmönnum sínum að engin jólaveisla verði fyrir leikmennina um hátíðirnar.

Til stóð að árleg hátíðahöld leikmannanna yrðu á þriðjudagskvöldið kemur, eftir leikinn gegn Swansea á mánudagskvöldið, en Everton á að mæta Chelsea fjórum dögum síðar, á Þorláksmessu.

„Ég felldi niður jólaveisluna, það er engin þörf á slíku sem stendur vegna þess hvernig staðan var á liðinu þegar ég kom hingað,“ hefur Skysports eftir Allardyce.

Eftir leikina gegn Swansea og Chelsea taka við viðureignir við WBA, Bournemouth og Manchester United um jól og áramót, fimm leikir á fjórtán dögum, frá 18. desember til 1. janúar.

Gylfi Þór Sigurðsson og félagar í Everton eiga útileik gegn Newcastle í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert