Mourinho meiri sigurvegari en Pep

Alan Pardew.
Alan Pardew. AFP

Alan Pardew, knattspyrnustjóri West Bromwich Albion, sem mætir José Mourinho og lærisveinum hans í Manchester United, segir að Portúgalinn hafi meira sigurhugarfar heldur en kollegi hans hjá Manchester City, Pep Guardiola, sem situr með sína ljósbláu sveit langhæstur á toppi ensku úrvalsdeildarinnar.

Manchester City hefur unnið 16 leiki í röð og hefur 52 stig. Manchester United getur með sigri í dag farið upp í 41 stig og minnkað forskotið í 11 stig þegar deildarkeppnin verður þá hálfnuð.

Mourinho hefur verið sakaður um að spila leiðinlegan bolta á tímabilinu og segir Pardew það stundum vera nauðsynlegt til þess að vinna titla.

„José og ég sjálfur myndum endilega vilja vinna alla leiki 4:0 með litríkri knattspyrnu,“ sagði Pardew.

„En þú getur það ekki. Þú þarft stundum að finna leiðir til þess að vinna. Það er það sem hann gerir betur en allir aðrir. Þar á meðal Pep. Hann vinnur fleiri titla,“ sagði Pardew.

„Gagnrýnin á hann er ekki á rökum reist, tel ég,“ sagði Pardew

„Þú keppir um Samfélagsskjöldinn með því að vinna deildina eða bikarinn. Það er annar bikar. Ég skil ekki hvers vegna fólk segir ekki að þetta sé bikar. Það sem hann stefnir á er að vinna. Svo einfalt er það,“ sagði Pardew um Mourinho.

Pardew hrósaði Mourinho svo fyrir varnarleik sinn.

„Það hafa alltaf verið tvær leiðir til þess að vinna fótboltaleiki. Með öguðum varnarleik eða snilldarlegum sóknarleik. Þú þarft að finna jafnvægi þarna á milli,“ sagði Pardew.

„Ég er á þeirri skoðun að fegurðina við leikinn sé hægt að finna á báðum endum vallarins,“ sagði Pardew.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert