Glæsimark Gylfa gegn gömlu félögunum

Gylfi Þór Sigurðsson fagnar glæsimarki sínu í kvöld.
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar glæsimarki sínu í kvöld. AFP

Gylfi Þór Sigurðsson reyndist sínum gömlu félögum í Swansea erfiður en hann skoraði glæsilegt mark fyrir Everton sem vann viðureign liðanna 3:1 í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld.

Swansea komst aftur á móti yfir í leiknum þegar Leroy Fer skoraði eftir hornspyrnu þar sem vörn Everton leit ekki vel út. Everton fékk svo vítaspyrnu í uppbótartíma fyrri hálfleiks og Wayne Rooney fór á punktinn. Lukasz Fabianski í marki Swansea varði hins vegar spyrnu hans glæsilega, en Dominic Calvert-Lewin náði frákastinu og jafnaði fyrir Everton. Staðan 1:1 í hálfleik.

Gylfi Þór tók svo til sinna ráða á 64. mínútu. Hann fékk boltann á vinstri kantinum, keyrði að teignum og lét vaða með hægri við vítateigsbogann. Boltinn sveif glæsilega í fjærhornið, óverjandi fyrir Fabianski en af virðingu við sitt gamla lið fagnaði Gylfi ekki markinu.

Tæpum tíu mínútum síðar fékk Everton aðra vítaspyrnu. Þrátt fyrir klúðrið fyrr í leiknum fór Rooney aftur á punktinn og gerði þá engin mistök og kom Everton í 3:1. Það reyndust lokatölur leiksins.

Gylfi spilaði allan leikinn fyrir Everton sem fór með sigrinum upp í níunda sæti deildarinnar og er með 25 stig. Swansea er á botninum með 12 stig.

Everton 3:1 Swansea opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti þrjár mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert