Vilja að Sánchez fari í vikunni

Alexis Sánchez.
Alexis Sánchez. AFP

Hluti af leikmönnum Arsenal vilja að Sílemaðurinn Alexis Sánchez verði búinn að yfirgefa liðið áður en það mætir Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á sunnudaginn.

Líklegast þykir að Sánchez fari til Manchester United en það ræðst af Armenanum Henrikh Mkhitaryan sem er aðeins tilbúinn að fara til Arsenal frá United fái hann launahækkun.

Eftir því hefur verið tekið að Sánchez hefur verið pirraður út í samherja sínum á undanförnum vikum og hann var ekki valinn í leikmannahóp Arsenal fyrir tapleikinn á móti Bournemouth um síðustu helgi.

Leikmenn Arsenal telja að fréttir um hugsanleg félagaskipti Sánchez séu að hafa áhrif á leik liðsins og vilja að þau klárist í vikunni. Arsenal fær Crystal Palace í heimsókn á sunnudaginn og freistar þess að vinna sinn fyrsta sigur á árinu en síðasti sigurleikur Arsenal leit dagsins ljós gegn Crystal Palace á Selhurst Park þann 28. desember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert