Agüero sló stuðningsmann og Guardiola æfur

Pep Guardiola niðurlútur á leiknum gegn Wigan í kvöld.
Pep Guardiola niðurlútur á leiknum gegn Wigan í kvöld. AFP

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, var æfur yfir rauða spjaldinu sem Fabian Delph fékk að líta þegar City tapaði gegn Wigan í kvöld í 16-liða úrslitum ensku bikarkeppninnar.

Delph var rekinn af velli rétt fyrir hálfleik en aðdragandi þess var nokkuð sérstakur þar sem dómari leiksins tók fyrst upp gula spjaldið, en skipti svo um skoðun og tók það rauða upp. Leikmenn Wigan höfðu þá hópast að honum og eflaust hafði það sín áhrif á það hve illur Guardiola var, en hann reifst heiftarlega við Paul Cook, stjóra Wigan, á hliðarlínunni.

Rifrildi stjóranna hélt áfram á leið þeirra inn í búningsklefa, eins og sjá á meðfylgjandi myndskeiði af Twitter-síðu Match of the Day sjónvarpsþáttarins.

Eftir leik þustu stuðningsmenn Wigan inn á völlinn og fögnuðu hetjulegum sigri sinna manna. Það er vitaskuld bannað og má Wigan væntanlega eiga von á sekt frá enska knattspyrnusambandinu. Sömuleiðis er hugsanlegt að Sergio Agüero, framherja City, verði refsað fyrir að slá til stuðningsmanns Wigan eins og sjá má á myndskeiðinu hér að neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert