„Mourinho vill losna frá United“

José Mourinho er undir mikilli pressu.
José Mourinho er undir mikilli pressu. AFP

Paul Merson, knattspyrnusérfræðingur hjá ensku sjónvarpsstöðinni Sky Sports, segir José Mourinho vilja að Manchester United reki sig, þar sem hann vill taka við PSG í Frakklandi.

Tímabilið hefur verið skrautlegt hjá Portúgalanum og er hann duglegur að koma sér í fréttirnar fyrir hin ýmsu ummæli. Var hann t.d. mikið gagnrýndur fyrir 12 mínútna ræðu á fréttamannafundi á dögunum, þar sem hann varði sjálfan sig í kjölfar þess að United féll óvænt úr leik í Meistaradeild Evrópu. 

Mourinho skrifaði undir nýjan samning við United í janúar, en Merson segir hann ekki hafa áttað sig á hversu erfitt starfið væri og nú vilji hann yfirgefa félagið. 

„Það er eins og hann sé viljandi að reyna að skapa ólgu hjá félaginu. Hann fylgist með PSG-starfinu úr fjarlægð núna. Hann er örugglega orðinn þreyttur á að reyna allt, en samt er Manchester City mikið, mikið ofar. Hann er að leita leiða til að losna.“

„Maður talar ekki eins og hann talar núna, að skjóta á eigið félag, nema hann sé pirraður. Stuðningsmennirnir eru ekki sáttir heldur. Svo segir hann að leikmennirnir verði að fullorðnast. Hann kennir öllu um nema sér sjálfum,“ sagði Merson að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert