Verður erfitt fyrir Liverpool að halda Salah

Mohamed Salah fagnar einu af fjórum mörkum sínum gegn Watford …
Mohamed Salah fagnar einu af fjórum mörkum sínum gegn Watford um síðustu helgi. AFP

Egyptinn Mohamed Salah hefur svo sannarlega slegið í gegn á sínu fyrsta tímabili með Liverpool í ensku knattspyrnunni.

Salah skoraði fjögur mörk í 5:0 sigri Liverpool gegn Watford og hefur þar með skorað 36 mörk í öllum keppnum með Liverpool á leiktíðinni.

Sparkspekingurinn Ian Wright, fyrrverandi framherji Arsenal og enska landsliðsins, segir að það verði erfitt fyrir Liverpool að halda Salah í sumar og telur að kantmaðurinn skæði feti í fótspor Brasilíumannsins Philippe Coutinho með því að spila í spænsku 1. deildinni, La Liga.

„Helsta málið fyrir þá er hvort hann haldi áfram að gera þessa hluti í rauðu skyrtu Liverpool eða hvort hann geri það í hvítu skyrtu Real Madrid. Frammistaða Salah með Liverpool hefur verið stórkostleg. Það er tilgangslaust að bera hann saman við hetjur fortíðarinnar því hann er betri á öllum sviðum,“ segir Wright í viðtali við enska blaðið The Sun.

Liverpool hafnaði í fyrrasumar tilboði frá Barcelona í Coutinho en það fékk hann svo að lokum í janúar á þessu ári fyrir 142 milljónir punda. Verðmiðinn á Salah er væntanlega sambærilegur en Liverpool greiddi ítalska liðinu Roma 36 milljónir punda fyrir Egyptann fyrir tímabilið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert