United byrjar með kvennalið

Old Trafford, leikvangur Manchester United.
Old Trafford, leikvangur Manchester United. Ljósmynd/Manchester United

Enska stórliðið Manchester United hefur ákveðið að byrja með atvinnumannalið í kvennaflokki og hefur sótt um það til enska knattspyrnusambandsins.

Manchester United hefur verið gagnrýnt fyrir að halda ekki úti kvennaliði eins og nokkur af stærstu og öflugustu liðunum á Englandi eins og Manchester City, Liverpool, Chelsea og Arsenal sem og mörg af toppliðunum í Evrópu eins og Bayern München, Barcelona, Paris SG og Wolfsburg, sem landsliðsfyrirliðinn Sara Björk Gunnarsdóttir leikur með. Real Madrid tilkynnti í haust að það hafi ákveðið að koma kvennaliði á fót.

„Við erum ánægði að tilkynna að Manchester United ætlar að byrja með kvennalið,“ segir Ed Woodward, stjórnarformaður Manchester United á vef félagsins.

Manchester United hefur sótt um til enska knattspyrnusambandsins að spila í 2. deildinni í atvinnumannadeildinni.

Kvennalið Manchester United verður byggt upp með sömu ímynd og sömu gildum og karlaliðið og mun bjóða leikmönnum úr akademíunni beina leið í átt að efsta stigi fótboltans með félaginu,“ segir Woodward.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert