Alfreð allt í öllu í endurkomunni

Alfreð Finnbogason.
Alfreð Finnbogason. Ljósmynd/Augsburg

Alfreð Finnbogason lagði upp fyrra mark Augsburg og skoraði það síðara í 2:0 sigri liðsins á Mainz í efstu deild Þýskalands í knattspyrnu í dag. Alfreð spilaði sinn fyrsta leik í dag eftir meiðslin sem hann varð fyrir í byrjun febrúar og var markið sem hann skoraði í dag það fyrsta sem hann gerir á þessu ári.

Alfreð lagði upp fyrra markið á 29. mínútu og skoraði svo sjálfur á 90. mínútu.

Alfreð hefur skorað 13 mörk í deildinni á tímabilinu og er hann 4. markahæsti leikmaður deildarinnar. Með marki sínu í dag jafnaði hann Pierre-Emerick Aubameyang sem genginn er í raðir Arsenal frá Dortmund.

Pólski framherjinn Robert Lewandowski hjá Bayern München er langmarkahæstur í deildinni en hann er með 28 mörk. Mark Uth hjá Hoffenheim og Kevin Volland hjá Leverkusen eru með 14 mörk.

Augsburg hefur 40 stig í 11. sæti og siglir lygnan sjó um miðja deild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert