Tímabilið búið hjá Oxlade-Chamberlain?

Alex Oxlade-Chamberlain borinn af velli á Anfield í kvöld.
Alex Oxlade-Chamberlain borinn af velli á Anfield í kvöld. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, var þungur á brún, spurður um meiðsli enska landsliðsmannsins Alex Oxlade-Chamberlain í kvöld en hann var borinn af velli í 5:2-sigrinum á Roma í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu.

Klopp lýsti meiðslunum sem „mjög slæmum“ meiðslum í fæti og sagði „útlit fyrir“ að Oxlade-Chamberlain myndi ekki geta tekið þátt í úrslitaleik Meistaradeildarinnar 26. maí ef Liverpool kæmist þangað. Það er því einnig óvíst hvort miðjumaðurinn getur gefið kost á sér í enska landsliðið á HM í Rússlandi.

„Við vitum ekki nákvæmlega stöðuna en læknateymið er ansi áhyggjufullt þó að hann sé ekki búinn að fara í skanna. Þess vegna er auðvelt að ímynda sér að þetta sé erfitt. Það er lítið eftir af tímabilinu. Útlitið er ekki gott. Ég er mjög bjartsýnn maður og ég vona að þetta líti bara illa út en sé ekki svo slæmt. Við sjáum til,“ sagði Klopp eftir leik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert