Eiður Smári spilar á Stamford Bridge

Eiður Smári og Michael Ballack spila saman á Stamford Bridge.
Eiður Smári og Michael Ballack spila saman á Stamford Bridge. Ljósmynd/.chelseafc.com

Eiður Smári Guðjohnsen spilar á sínum gamla heimavelli, Stamford Bridge, í næsta mánuði þegar gamlar stjörnur úr Chelsea mæta kollegum sínum í liði Inter.

Frá þessu er greint á heimasíðu Chelsea en leikurinn er spilaður til minningar um Ray Wilkins, fyrrverandi leikmann Chelsea og þjálfara, sem lést úr hjartaslagi í síðasta mánuði.

Meðal þeirra leikmanna sem munu klæðast búningi Chelsea verða auk Eiðs Smára þeir Michael Ballack, Gianfranco Zola, Marcel Desailly, Roberto Di Matteo, Dennis Wise og Gianluca Vialli.

„Ég get ekki beðið eftir því að koma aftur á Stamford Bridge og spila fyrir framan stuðningsmenn Chelsea með sumum af vinum mínum og liðsfélögum ásamt þekktum einstaklingum í sögu félagsins. Ray hafði mikil áhrif á mig persónulega og ég veit hversu mikill hann var í metum hjá öllum hjá Chelsea og við munum setja upp góða sýningu til að heiðra hann,“ segir Eiður Smári í viðtali á heimasíðu Chelsea.

<br/><br/>
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert