Samherji Harðar í sex leikja bann

Leikmenn Bristol City fagna marki.
Leikmenn Bristol City fagna marki. AFP

Famara Diedhiou, framherji enska B-deildarliðsins Bristol City, sem landsliðsmaðurinn Hörður Björgvin Magnússon leikur með, hefur verið úrskurðaður í sex leikja bann.

Diedhiou var fundinn sekur um að hafa hrækt á andstæðing sinn í leik með Bristol gegn Birmingham í síðasta mánuði. Diedhiou neitaði áskökun um að hafa hrækt á leikmanninn en aganefnd enska knattspyrnusambandsins úrskurðaði Diedhiou eftir vitnaleiðslur.

Diedhiou er dýrasti leikmaðurinn í sögu Bristol City, sem greiddi 5,3 milljónir punda fyrir framherjann þegar það fékk hann frá franska liðinu Angers í fyrrasumar.

Hann skoraði 14 mörk í 36 leikjum með Bristol City í öllum keppnum á nýafstöðnu tímabili en hann missir af fyrstu sex leikjum sinna manna á næstu leiktíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert