Emery ráðinn stjóri Arsenal

Arsenal staðfestir á vef sínum að Unai Emery hafi verið ráðinn knattspyrnustjóri liðsins og tekur hann við starfi Arsene Wengers sem lét af störfum á dögunum eftir 22 ára starf hjá Lundúnaliðinu.

Fregnir um ráðningu Arsenal á Emery bárust í gærkvöld á heimasíðu Emery en færslan var svo fljótlega tekin út.

Emery, sem er 46 ára gamall, kemur til Arsenal frá franska liðinu Paris SG sem hann hefur þjálfað undanfarin tvö ár en þar áður var hann við stjórnvölinn hjá spænska liðinu Sevilla í þrjú ár. Hann hóf þjálfaraferil sinn hjá spænska liðinu Lorca Deportiva árið 2005 og hann þjálfaði síðan spænsku liðin Almeria og Valencia, og rússneska liðið Spartak Moskva áður en hann tók við þjálfun Sevilla.

„Ég er mjög ánægður að fara til eins af bestu félögunum í fótboltanum. Arsenal er vel þekkt og elskað út um allan heiminn fyrir þann fótbolta sem það hefur spilað, það gefur ungum leikmönnum tækifæri og er með frábæran leikvang. Ég er mjög spenntur að fá ábyrgðina að hefja nýjan mikilvægan kafla í sögu Arsenal,“ segir Emery á vef Arsenal.

 
 
Unai Emery.
Unai Emery. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert