Heilaæxli fjarlægt úr Enrique

José Enrique lék um tíma með Liverpool á Englandi.
José Enrique lék um tíma með Liverpool á Englandi.

Fyrrverandi knattspyrnumaðurinn José Enrique hefur staðið í ströngu undanfarið en hann jafnar sig nú eftir að heilaæxli var fjarlægt með skurðaðgerð en hann segir frá þessu á Instagram síðu sinni.

Enrique er 32 ára gamall og lék hann með Liverpool á Englandi á árunum 2011 til 2016 en hann lagði skónna á hilluna í fyrra vegna þrálátra hnémeiðsla. Hann var einnig á mála hjá Newcastle um árabil og spilaði þrjá A-landsleiki fyrir Spán.

„Á einum mánuði komst ég að því að ég væri með sjaldgæft heilaæxli og lét í kjölfarið fjarlægja það. Ég biðst afsökunar á að hafa ekki verið mikið við, þetta hafa verið erfiðustu vikur lífs míns,“ skrifar Enrique á Instagram vef sínum.

Það mun taka Enrique einhvern tíma að ná sér að fullu en hann missti meðal annars sjónina tímabundið. Hann segir knattspyrnumenn lifa í loftbólu.

„All þetta fær mig til að meta lífið enn meir. Knattspyrnumenn lifa í loftbólu, óraunverulegu lífi. Þú heldur að þú sért ódrepandi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert