Conte þakklátur Chelsea

Antonio Conte lyftir Englandsmeistarabikarnum á sínu fyrsta tímabili.
Antonio Conte lyftir Englandsmeistarabikarnum á sínu fyrsta tímabili. AFP

Ítalski knattspyrnustjórinn Antonio Conte var rekinn á dögunum frá enska úrvalsdeildarfélaginu Chelsea eftir tvö ár í starfi.

Conte gerði Lundúnaliðið að Englandsmeisturum á sínu fyrsta ári og hafnaði svo í 5. sæti síðastliðið vor, ásamt því að vinna enska bikarinn. Mikið gekk á í herbúðum félagsins síðasta vetur og var hann að lokum látinn fara í síðustu viku þrátt fyrir að eiga eitt ár eftir af samningi sínum.

Hann hefur nú gefið út yfirlýsingu þar sem hann þakkar Chelsea, starfsliði, leikmönnum og stuðningsmönnum fyrir „ógleymanleg tvö ár“.

„Ég naut mín á Englandi og í Lundúnum og ég vil þakka leikmönnunum en þeirra skuldbinding og hæfileikar voru árangri okkar nauðsynlegir. Starfsfólki mínu sem lagði hart að sér og stuðningsmönnunum sem voru frábærir gagnvart mér og fjölskyldu minni,“ sagði Conte meðal annars.

„Ég eignaðist margar minningar hjá Chelsea eftir ógleymanleg tvö ár og ég mun taka þessa reynslu með mér í næstu verkefni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert