Sánchez fær ekki vegabréfsáritun

Alexis Sánchez.
Alexis Sánchez. AFP

Knattspyrnumaðurinn Alexis Sánchez hefur misst af upphafi æfingaferðalags Manchester United um Bandaríkin sökum þess að hann hefur ekki fengið vegabréfsáritun sem heimilar honum að ferðast gegnum landið.

Sílemaðurinn samþykkti skilorðsbundinn 16 ára fangelsisdóm í febrúar á þessu ári vegna skattasvika á Spáni. Samkvæmt bandarískum lögum getur enginn fengið vegabréfsáritun sem hefur verið dæmdur sekur fyrir fjársvik.

Sánchez getur fengið undanþágu frá þessum lögum og vinna lögmenn hans nú hörðum höndum að því að hann fái leyfi til að ferðast til Bandaríkjanna svo hann geti hafið æfingar með United fyrir komandi tímabil. Það ferli hefur þó tekið lengri tíma en vonast var.

Man. United mætir liði Club America frá Mexíkó í fyrsta æfingaleik sumarsins aðfaranótt föstudags næstkomandi. United mætir síðar San Jose Earthquakes, AC Milan, Liverpool og Real Madrid í Bandaríkunum.

Sánchez var óvænt fjarverandi er leikmenn og starfslið félagsins héldu til Los Angeles í Bandaríkjunum í gær enn hann hafði æft með liðinu á æfingasvæði þess í Carrington í Manchester.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert