Sturridge vill vera áfram hjá Liverpool

Daniel Sturridge vonast til að vera áfram hjá Liverpool.
Daniel Sturridge vonast til að vera áfram hjá Liverpool. AFP

Enski knattspyrnumaðurinn Daniel Sturridge hefur engan áhuga á að yfirgefa Liverpool og ætlar hann að berjast um sæti í byrjunarliðinu hjá Jürgen Klopp á komandi leiktíð.

Sturridge var aðeins fimm sinnum í byrjunarliði hjá Liverpool á síðustu leiktíð og var hann lánaður til WBA síðari hluta tímabilsins. Hann spilaði lítið með WBA vegna meiðsla, en hann hefur glímt við tíð meiðsli nánast allan ferilinn. 

Hann hefur verið orðaður við félög á Spáni og Tyrklandi, en Sturridge hefur ekki áhuga á að færa sig um set. „Ég vil vera áfram hjá Liverpool og vonandi fæ ég að spila í hverri viku," sagði Sturridge í samtali við Daily Mirror. 

Sturridge hefur spilað alla leiki Liverpool á undirbúningstímabilinu. „Undirbúningstímabilið hefur gengið vel og ég vil byggja ofan á það. Ég er spenntur fyrir komandi leiktíð og það er frábært að vera kominn aftur til Liverpool," sagði Sturridge enn fremur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert