Son samdi við Tottenham

Son Heung-min vonsvikinn eftir að sigurinn frækni á Þýskalandi dugði …
Son Heung-min vonsvikinn eftir að sigurinn frækni á Þýskalandi dugði Suður-Kóreu ekki til að komast í 16-liða úrslit á HM. AFP

Suður-kóreski knattspyrnumaðurinn Son Heung-min hefur skrifað undir nýjan samning við enska félagið Tottenham Hotspur til fimm ára, eða til ársins 2023.

Son, sem er 26 ára gamall sóknarmaður, kom til Tottenham frá Leverkusen í Þýskalandi árið 2015 og hefur frá þeim tíma skorað 47 mörk í 140 leikjum fyrir Lundúnaliðið. Hann lék 53 af 55 mótsleikjum liðsins á síðasta tímabili og er orðinn markahæsti Asíubúinn í sögu ensku úrvalsdeildarinnar, með 30 mörk í 99 leikjum.

Hann var í stóru hlutverki hjá Suður-Kóreu á HM í Rússlandi í sumar og skoraði tvö mörk, annað þeirra í sigrinum óvænta á fráfarandi heimsmeisturum Þýskalands. Hann hefur skorað 23 mörk í 70 landsleikjum fyrir þjóð sína.

Son hefur verið í Evrópu frá sextán ára aldri en hann kom til Hamburger í Þýskalandi árið 2008 og var í röðum félagsins til 2013 þegar hann fór til Leverkusen.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert