„Látið greyið Karius í friði“

Loris Karius hefur ekki átt sjö dagana sæla.
Loris Karius hefur ekki átt sjö dagana sæla. AFP

Spænski markvörðurinn Iker Casillas hefur biðlað til fólks um að láta kollega sinn Loris Karius í friði en sá þýski hefur gerst sekur um ansi mörg mistök milli stanganna undanfarið.

Karius átti afleitan leik í úrslitum Meistaradeildar Evrópu gegn gömlu félögum Casillas Í Real Madrid. Síðan þá hefur hann átt á brattann að sækja í æfingaleikjum Liverpool og hreinlega gert hver mistökin á fætur öðrum, nú síðast í gærkvöldi í 3:1-tapi gegn Dortmund.

Karius hefur verið auðvelt skotmark netverja á samfélagsmiðlum en Casillas, sem spilaði yfir 700 leiki fyrir Real Madrid á árunum 1999 til 2015, hefur nú beðið fólk um að láta greyið Karius í friði.

„Munu þessar árásir á Karius einhvern tímann enda?“ skrifað Casillas á Twitter. „Það eru mörg alvarlegri vandamál í heiminum, látið strákinn í friði! Hann er manneskja eins og við hin.“

Ólíklegt er að Karius standi á milli stanganna hjá Liverpool í ensku úrvalsdeildinni á komandi leiktíð en félagið eyddi á dögunum metfé í að fá hinn brasilíska Alisson til liðsins frá Roma á Ítalíu.

Iker Casillas varð heimsmeistari á sínum tíma með Spánverjum og …
Iker Casillas varð heimsmeistari á sínum tíma með Spánverjum og var viðstaddur opnunarhátið heimsmeistaramótsins í Rússlandi í sumar. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert