Moutinho á leið til Úlfanna

Joao Moutinho (t.v.) í leik Portúgals og Marokkó á HM …
Joao Moutinho (t.v.) í leik Portúgals og Marokkó á HM í sumar. AFP

Portúgalski miðjumaðurinn Joao Moutinho er við það að ganga til liðs við enska úrvalsdeildarliðið Wolves en það er Sky Sports sem greinir frá.

Úlfarnir hafa verið í óðaönn að styrkja sig fyrir veturinn eftir að hafa unnið ensku B-deildina á síðustu leiktíð og verður Moutinho fimmti Portúgalinn til að ganga til liðs við knattspyrnufélagið.

Moutinho er 31 árs og hefur verið á mála hjá Mónakó í Frakklandi undanfarin fimm ár en hann var á sínum yngri árum mikið orðaður við stærstu lið Evrópu. Hann hefur spilað 113 landsleiki fyrir Portúgal og skorað í þeim sjö mörk.

Ásamt Moutinho hafa Úlfarnir samið við markvörðinn Rui Patricio en þeir báðir voru með portúgalska landsliðinu á HM í Rússlandi í sumar. Einnig hafa þeir Diogo Jota, Rúben Vinagre og Paulo Alves gengið til liðs við félagið í sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert