Vængbrotið United missteig sig aftur

Alexis Sanchez sneri aftur í lið United í gær.
Alexis Sanchez sneri aftur í lið United í gær. AFP

Manchester United gerði sitt annað jafntefli í sínum öðrum leik í gærkvöldi í æfingaferð sem stendur yfir í Bandaríkjunum um þessar mundir.

United og bandaríska liðið San Jose Earthquakes mættust í gær og lauk leiknum með markalausu jafntefli í Santa Clara í Kaliforníu. Fyrir helgi gerði liðið 1:1-jafntefli gegn Club America frá Mexikó í fyrsta leik sumarsins.

Margir af helstu leikmönnum United eru enn fjarverandi eftir þátttöku á heimsmeistaramótinu í Rússlandi og hefur José Mourinho, knattspyrnustjóri liðsins, ekki áhyggjur.

„Við erum ekki lið, við erum hópur af leikmönnum úr mismunandi liðum. Sumir eru í aðalliðinu, aðrir eru í U23, enn aðrir að koma eftir að hafa verið að láni annars staðar. Við höfum ekki lið til að spila betur en þetta var fín æfing,“ sagði hann eftir leikinn en Sílemaðurinn Alexis Sanchez sneri þó aftur í liðið eftir vandamál með vegabréfsáritun inn í Bandaríkin.

Næst hjá United er leikur gegn Evrópumeisturum Real Madrid í Miami á miðvikudaginn kemur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert