Cech ósáttur með grín Leverkusen

Petr Cech var allt annað en sannfærandi í leiknum á …
Petr Cech var allt annað en sannfærandi í leiknum á móti Manchester City. AFP

Markvörður Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, Peter Cech, er allt annað en sáttur með framkomu þýska liðsins Bayer Leverkusen í sinn garð en félagið gerði grín að frammistöðu hans á móti Manchester City á opinberri Twitter-síðu félagsins.

Nýr knattspyrnustjóri Arsenal, Unai Emery, leggur áherslu á að spila út frá markmanni og virtist Cech ekki allt of öruggur á boltann. Cech var valinn í byrjunarlið Arsenal fram yfir Bernd Leno sem keyptur var til félagsins fyrir tímabilið frá Leverkusen.

Myndband þar sem Cech skorar næstum því sjálfsmark þegar hann reynir að senda boltann út frá marki fór af stað á netinu og blandaði Leverkusen sér inn í málið þar sem þeir deildu myndbandi af Leno spila út frá marki með orðunum „Ef þið eruð að velta fyrir ykkur hvernig á að spila út frá markmanni.“

Þetta féll ekki vel í kramið hjá Cech sem svaraði fyrir sig á Twitter: 

„Hjá Arsenal tileinkum við okkur gildi sem gerir okkur að stóru félagi innan sem utan vallar. Sanngjörn keppni, fagmennska og drengskapur er það mikilvægasta sem við kennum ungum knattspyrnumönnum og það er leiðinlegt að sjá ekki önnur félög deila þessum sömu gildum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert