De Bruyne frá í þrjá mánuði?

Kevin De Bruyne gæti verið frá næstu þrjá mánuðina vegna …
Kevin De Bruyne gæti verið frá næstu þrjá mánuðina vegna meiðsla á hné. AFP

Kevin De Bruyne, miðjumaður enska knattspyrnufélagsins Manchester City, meiddist illa á æfingu liðsins í dag en það eru enski miðlar sem greina frá þessu. De Bruyne meiddist á hné og er nú óttast að hann sé með slitin liðbönd.

Sportmail greinir frá því að leikmaðurinn gæti verið frá í þrjá mánuði vegna meiðslanna en hann var algjör lykilmaður í liðinu á síðustu leiktíð þegar City varð meistari. Hann var af mörgum talinn besti miðjumaðurinn í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð. 

Hann kom við sögu í 52 leikjum með City á síðustu leiktíð þar sem hann skoraði 12 mörk og lagði upp 21 mark fyrir liðsfélaga sína.

De Bruyne er lykilmaður í belgíska landsliðinu, bronsliði HM í sumar. Belgar sækja Íslendinga heim þann 11. september í Þjóðadeildinni og nú er útlit fyrir að De Bruyne missi af þeim leik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert