Óþarfi að gera fótboltann leiðinlegan líka

Jürgen Klopp sér ekki tilganginn í því að láta liðið …
Jürgen Klopp sér ekki tilganginn í því að láta liðið sitt spila leiðinlegan fótbolta. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool á Englandi, var í áhugaverðu viðtali við France Football á dögunum. Klopp tók við Liverpool í október 2015 og hefur komið liðinu í þrjá úrslitaleiki á fyrstu þremur árum sínum hjá félaginu en honum hefur ekki enn þá tekist að skila titli í hús. Klopp var spurður út í það hvaða hugmyndafræði byggi á bak við pressuleikinn sem hann vill sjá lið sín spila.

„Ég hef verið þjálfari í átján ár og ég hef í raun aldrei pælt í því af hverju ég vil spila svona, þótt ég hafi fengið þessa spurningu margoft. Ég á kannski bara erfitt með að skilja spurninguna, kannski er engin ákveðin hugmyndafræði á bak við þetta hjá mér. Ég veit það ekki, það eina sem ég veit er að ég elska knattspyrnu.“

„Að sjá liðin mín spila hápressu heldur mér á tánum og gerir mig spenntan á hliðarlínunni. Í 95% tilfella er ég spenntur þegar ég horfi á liðið mitt spila. Ef ég fyndi ekki fyrir þessari spennu á  hliðarlínunni þá væri þetta algjör tímasóun hjá mér að standa í þessu. Það mikilvægasta í knattspyrnu er skemmtanagildið. Það er of mikið af vandamálum til staðar í heiminum, án þess að við förum að gera fótboltann leiðinlegan líka.“

„Ég vil sjá leikmennina mína glaða. Ég vil sjá ástríðuna skína úr augunum á þeim og ég vil sjá þá berjast fyrir lífi sínu á vellinum. Ég vil sjá þá gefa sig alla í þetta enn fyrst og fremst vil ég sjá þá njóta sín og ég vil að þeir komi mér á óvart,“ sagði Klopp enn fremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert