Spiluðum vel í 75 mínútur og hræðilega í 15

Maurizio Sarri á hliðarlínunni í dag.
Maurizio Sarri á hliðarlínunni í dag. AFP

„Þetta var mjög mikilvægt. Það er ekki auðvelt fyrir okkur að safna stigum og því er mikilvægt að ná í þrjú í dag. Við spiluðum vel í 75 mínútur en hræðilega í 15 mínútur,“ sagði Maurizio Sarri, knattspyrnustjóri Chelsea, eftir 3:2-sigur á Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í dag. 

Hann segir innkomu Eden Hazard og Mateo Kovacic hafa breytt miklu, en þeir komu inn á sem varamenn í seinni hálfleik í stöðunni 2:2. 

„Það var gott að fá þá inn. Hraðinn í leiknum var að minnka og leikurinn okkar varð betri með innkomu þeirra. Mateo getur orðið virkilega góður leikmaður,“ bætti Sarri við. 

Eins og gefur að skilja var kollegi hans hjá Arsenal, Unai Emery, ekki eins kátur. Hann sá þó jákvæða punkta hjá sínu liði. 

„Auðvitað eru úrslitin slæm, en ég sé framfarir. Við gerðum vel eftir að við lentum 2:0 undir og við fengum fleiri færi til að skora. Við náðum ekki að spila eins vel í síðari hálfleik og við fengum færri færi,“ sagði Spánverjinn. 

Unai Emery þurfti að sætta sig við tap.
Unai Emery þurfti að sætta sig við tap. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert