Gylfi fyrstur á blað hjá Hutchison

Gylfi Þór Sigurðsson var frábær í 2:1-sigri Everton á Southampton …
Gylfi Þór Sigurðsson var frábær í 2:1-sigri Everton á Southampton um síðustu helgi. AFP

Donald Hutchison, fyrrverandi leikmaður enska knattspyrnufélagsins Everton, hrósaði Gylfa Þór Sigurðssyni, leikmanni Everton, í hástert í viðtali við heimasíðu félagsins á dögunum. Hutchison spilaði með Everton á árunum 1998 til 2000 og er vinsæll hjá stuðningsmönnum liðsins en Gylfi var frábær í 2:1-sigri Everton á Southampton á Goodison Park um síðustu helgi í 2. umferð ensku úrvalsdeildarinnar.

„Gylfi Sigurðsson væri fyrstur á blað hjá mér ef ég væri að velja liðið. Ef þú vilt einhvern með sköpunargáfu og einhvern sem getur búið eitthvað til, þá velurðu Gylfa. Hann er í öðrum klassa sem stendur. Hann er stórhættulegur í föstum leikatriðum og og hann virðist alltaf velja réttu sendingarleiðina.“

„Fyrst og fremst þurfa menn að búa yfir ákveðinni tækni til þess að taka vel á móti boltanum og koma honum frá sér. Þú þarf hins vegar líka að hafa ákveðna yfirsýn, sem Gylfi hefur svo sannarlega. Þegar ég horfi á Sigurðsson spila þá sé ég strax að hann býr yfir öllum þessum kostum. Hann þekkir sín takmörk en spilar á styrkleikum sínum. Hann er frábær leikmaður," sagði Hutchison enn fremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert