Heldur ekki vatni yfir Van Dijk

Virgil Van Dijk var frábær í 2:0-sigri Liverpool gegn Crystal …
Virgil Van Dijk var frábær í 2:0-sigri Liverpool gegn Crystal Palace. AFP

Jamie Carragher, fyrrverandi varnarmaður Liverpool, hrósaði Virgil Van Dijk, varnarmanni liðsins, í hástert eftir leik Liverpool og Crystal Palace í 2. umferð ensku úrvalsdeildarinnar á Selhurst Park í gær. 

Liverpool vann leikinn 2:0 en Van Dijk var afar öflugur í leiknum og hélt Christian Benteke í skefjum en hann er af mörgum talinn besti skallamaðurinn í ensku úrvalsdeildinni. Carragher segir að Van Dijk hafi komið sér á óvart síðan hann kom til Liverpool frá Southampton í janúar á þessu ári.

„Ég vissi það að Van Dijk væri góður leikmaður en hann er betri en ég hélt, satt best að segja. Ég var vanur að segja að Liverpool myndi ekki vinna ensku úrvalsdeildina þar sem vörn liðsins væri ekki nægilega öflug. Núna eru þeir með Van Dijk og hlutirnir eru öðruvísi. Það er erfitt að finna betri varnarmann í deildinni en hann.“

„Hann er að taka við af Vincent Kompany sem besti varnarmaður deildarinnar. Kompany var sá besti fyrir þremur árum og hann og Van Dijk eru mjög svipaðir leikmenn. Það er ekkert sem þá skortir,“ sagði Carragher í samtali við Sky Sports.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert