„Kane er ekki vél“

Harry Kane hefur ekki skorað í síðustu fimm leikjum sínum.
Harry Kane hefur ekki skorað í síðustu fimm leikjum sínum. AFP

„Harry Kane er ekki vél og það er aðeins tímaspursmál hvenær mörkin fara að detta inn hjá honum,“ segir Eril Lamela liðsfélagi Kane í liði Tottenham.

Kane hefur mátt þola gagnrýni fyrir frammistöðu sína en þessi mikli markaskorari hefur nú spilað fimm leiki í röð með Tottenham og enska landsliðinu án þess að skora. Kane tókst ekki að finna netmöskvana í gær þegar Tottenham tapaði fyrir Inter 2:1 í Meistaradeildinni en Kane fékk nokkur góð færi í leiknum.

„Það er ekki eins og Harry þurfti að skora í hverjum leik. Christian skoraði á móti Inter og ég í síðasta leik. Sonny ( Son Heung-min) mun skora og Lucas (Moura) mun skora. Það er ekki pressan á Harry. Allir sóknarmenn þurfa að skora,“ segir Lamela.

Tottenham hefur nú tapað þremur leikjum í röð og það í fyrsta sinn undir stjórn Mauricio Pochettino.

„Ég held að við séum ekki að missa sjálfstraustið. Við trúum á hvorn annan í þessu liði og þess vegna berjumst við alltaf til loka tímabilsins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert