Pogba gagnrýnir leikstíl United

Paul Pogba gengur niðurlútur af velli eftir leikinn gegn Wolves.
Paul Pogba gengur niðurlútur af velli eftir leikinn gegn Wolves. AFP

Paul Pogba, miðjumaður Manchester United, gagnrýnir leikstíl sinna manna á heimavelli en þriðja leikinn í röð tókst United ekki að vinna sigur á nýliðum Wolves í ensku úrvalsdeildinni á Old Trafford á laugardaginn.

1:1 varð niðurstaðan á Old Trafford og er Manchester United í sjöunda sæti deildarinnar, átta stigum á eftir erkifjendum sínum í Liverpool, sem er með fullt hús stiga eftir sex umferðir.

„Við erum á heimavelli og hefðum átt að spila betur á móti Wolves. Við eigum að sækja á heimavelli,“ segir Pogba.

„Ég held að liðin séu hrædd þegar þau sjá Manchester United sækja og sækja. Það voru okkar mistök að gera það ekki í þessum leik. Við erum á Old Trafford og ættum að sækja og pressa á mótherjana eins og við gerðum á móti Tottenham, Liverpool, Chelsea og Arsenal á síðustu leiktíð,“ segir Frakkinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert