Krónprinsinn vill kaupa Man. United

Leikmenn Manchester United fagna marki.
Leikmenn Manchester United fagna marki. AFP

Krónprins Sádi-Arabíu, Mohammad bin Salman, er sagður leita að fjárfestingaleiðum inn í knattspyrnuheiminn og horfir til að mynda til Manchester United í þeim efnum.

Það er Sky sem greinir frá þessu, en krónprinsinn er sagður vilja hasla sér völl á þessum vettvangi eins og auðjöfrar frá nágrannalöndunum hafa gert. Eigendur Manchester City eru til dæmis frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum og eigendur PSG í Frakklandi eru frá Katar.

Glazer-fjölskyldan hefur átt meirihluta í Manchester United síðan árið 2005, en hlutur hennar er metinn á 3 milljarða punda. Sky greinir frá því að United sé ekki til sölu, en boð upp á um 4 milljarða punda gæti freistað núverandi eigenda.

United er þegar tengt stjórnvöldum í Sádi-Arabíu eftir að hafa gert samkomulag við ríkið í fyrra um að taka þátt í uppbyggingu knattspyrnunnar þar í landi.

Krónprinsinn Mohammad bin Salman.
Krónprinsinn Mohammad bin Salman. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert