Útilokar Evrópumeistaratitilinn

Pep Guardiola.
Pep Guardiola. AFP

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Englandsmeistara Manchester City, segir að lið sitt eigi ekki möguleika á að vinna Meistaradeildina á þessu tímabili.

City er í öðru sæti í sínum riðli með þrjú stig en liðið tapaði fyrir Lyon á heimavelli í 1. umferð riðlakeppninnar en vann góðan útisigur á þýska liðinu Hoffenheim í 2. umferðinni. Lærisveinar Guardiola voru slegnir út af Liverpool í átta liða úrslitunum í Meistaradeildinni á síðustu leiktíð en nú stefnir Guardiola á að komast lengra og fara í undanúrslitin.

„Saga okkar segir að undanúrslitin eru það mesta sem við getum náð á þessu tímabili. Ég veit ekki hvort við erum tilbúnir að fara lengra en við færumst sífellt nær því að fara alla leið,“ segir Spánverjinn.

Næstu tveir leikir Manchester City í Meistaradeildinni eru gegn úkraínska liðinu Shakhtar Donetsk en liðin eigast við í Úkraínu 23. október og 7. nóvember í Manchester.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert