Lítil stemning á leikjum á Englandi

Alexandre Lacazette í faðmi vinnufélaganna hjá Arsenal.
Alexandre Lacazette í faðmi vinnufélaganna hjá Arsenal. AFP

Frakkanum Alexandre Lacazette hjá Arsenal þykir stuðningsmenn liðanna í ensku úrvalsdeildinni vera með rólegasta móti. 

Lacazette sagði í samtali við franskt dagblað að stemningin á leikjum í Frakklandi væri mun meiri og betri en á leikum í ensku úrvalsdeildinni en framherjinn lék með Lyon áður en hann gekk í raðir Arsenal í fyrra. 

„Áhorfendurnir á Englandi eru frekar áhorfendur heldur en stuðningsmenn. Andrúmsloftið í leikjum er skemmtilegra í Frakklandi,“ sagði Lacazette meðal annars en slík umræða hefur heyrst áður eftir að enska úrvalsdeildin kom til sögunnar. Fræg voru ummæli Roy Keane þáverandi fyrirliða Manchester United þegar hann lét stuðningsmenn liðsins heyra það. 

Í viðtalinu segist Lacazette njóta þess að leika með Pierre-Emerick Aubameyang og virðist ánægður hjá Arsenal þótt rólegra sé á áhorfendapöllunum en víða annars staðar í Evrópu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert