Efins um að Lukaku sé efni í meistara

Paul Scholes var sigursæll leikmaður.
Paul Scholes var sigursæll leikmaður. AFP

Sem leikmaður Manchester United ræddi Paul Scholes sjaldan við fjölmiðla. Þegar leikmannaferlinum sleppti kjaftar á honum hver tuska og nú veltir hann því fyrir sér hvort United geti orðið meistari með Lukaku sem aðalframherja liðsins. 

„Ég er erfins um að liðið geti nokkurn tíma orðið meistari með markaskorara eins og hann sem aðal framherja. Hann er ekki nægilega góður leikmaður þegar hann er ekki inni í teig,“ sagði Scholes um Belgann sem skorað hefur 4 mörk í fyrstu 8 leikjunum í deildinni. 

Scholes segir þó að innistæða sé fyrir framförum hjá Lukaku. „Ég er ekki viss um að hann leggi nógu hart að sér en hann er ungur maður sem hefur staðið sig og skorað mörg mörk. Hann er sterkur og snöggur en Lukaku lítur út fyrir að skorta sjálfstraust um þessar mundir eins og svo margir leikmenn United. Ég efast um að hann átti sig á því hversu góður hann getur orðið en hver annar ætti svo sem að spila í fremstu víglínu hjá United?“ spurði Scholes í samtali við ESPN og segist í því sambandi telja Anthony Martial og Marcus Rashford vera líklegri til að spila vel á köntunum en fyrir miðju í sókninni. 

Scholes segir jafnframt að breiddin þurfi að vera meiri því allir leikmenn missi flugið á vellinum af og til. „Við (Unitedliðið sem vann þrefalt 1999) vorum með Andy Cole, Teddy Sheringham, Ole Gunnar Solskjær og Dwight Yorke. Þegar einhver þeirra var í lægð eins og gerist hjá öllum knattspyrnumönnum þá var einhver annar tilbúinn til að taka hans stöðu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert