Fordæma neteinelti í garð fyrirliða Chelsea

Karen Carney kemur Chelsea yfir gegn Fiorentina í Meistaradeildinni í …
Karen Carney kemur Chelsea yfir gegn Fiorentina í Meistaradeildinni í gær. Ljósmynd/@ChelseaFCW

Knattspyrnukonan Karen Carney, fyrirliði Chelsea á Englandi, varð fyrir neteinelti í gær eftir 1:0-sigur liðsins gegn Fiorentina í fyrri leik liðanna í Lundúnum í Meistaradeild Evrópu. Carney skoraði eina mark leiksins úr vítaspyrnu en hún fékk nokkur góð færi í leiknum sem hún fór illa með. Notandi á samfélagsmiðlinum Instagram var ósáttur með færanýtingu leikmannsins og lét hana heyra það duglega í skilaboðakerfi forritsins.

Phil Neville, þjálfari enska kvennalandsliðsins, var allt annað en sáttur með skilaboðin, líkt og Chelsea og enska knattspyrnusambandið og sendu þau frá sér yfirlýsingu vegna þessa í dag. „Svona neteinelti og hegðun á samfélagsmiðlum er algjörlega óásættanleg. Við höfum nú þegar tilkynnt málið til Instagram og vonumst við til þess að viðbrögðin verði skjót hjá forráðamönnum samfélagsmiðilsins.“

Forráðamenn Instagram voru fljótir að svara í dag og hafa nú lokað á aðganga þeirra sem létu ósæmileg ummæli falla í garð Carney. „Við höfum enga þolinmæði fyrir svona hegðun og höfum því lokað á aðganga þeirra sem sýndu af sér óæskilega hegðun,“ segir í tilkynningu frá Instagram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert