Aron Einar sneri aftur

Aron Einar Gunnarsson.
Aron Einar Gunnarsson. Ljósmynd/Cardiff

Íslenskir knattspyrnuunnendur fengu góðar fréttir á laugardaginn þegar landsliðsfyrirliðinn, Aron Einar Gunnarsson, sneri aftur á knattspyrnuvöllinn. Aron lék þá fyrsta leik sinn í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu með Cardiff City.

Cardiff var án sigurs í fyrstu átta leikjum sínum en vann Fulham 4:2 og komst með því úr fallsæti með 5 stig en liðið er nú fyrir ofan Fulham, Huddersfield og Newcastle. Aron lék þarna sinn fyrsta leik í tæpa fjóra mánuði, eða síðan Ísland tapaði fyrir Króatíu 1:2 í Rostov í lokaleik sínum á HM í Rússlandi 26. júní.

Netmiðillinn Walesonline hrósar Aroni á einfaldan og skýran hátt fyrir frammistöðu sína og gefur honum 8 í einkunn með þessum orðum „Fyrsti leikur íslenska landsliðsmannsins á tímabilinu og það var eins og hann hefði aldrei verið í burtu. Mjög öruggur með boltann, vann sín skallaeinvígi og tapaði boltanum sárasjaldan. Honum var líka vel fagnað eftir fyrsta langa innkastið, og að verðleikum.“

Aron er því formlega kominn aftur í ensku úrvalsdeildina en þar lék hann áður 23 leiki með Cardiff keppnistímabilið 2013-2014. Hann lék fyrstu 77 mínútur leiksins.

Nánar er fjallað um enska boltann í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert