Austin sleppur við refsingu

Charlie Austin, framherji Southampton.
Charlie Austin, framherji Southampton. AFP

Charlie Austin fær ekki refsingu fyrir ummæli sín í garð dómara leiks Southampton og Watford í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta á laugardaginn var. Austin skoraði mark í stöðunni 1:0 fyrir Southampton um miðjan seinni hálfleik en það var dæmt af. Watford jafnaði metin undir lokin og var Austin allt annað en sáttur. 

„Þetta var fáránlegt. Þeir áttu ekki að eiga möguleika á að jafna. Við skoruðum fullkomlega löglegt mark til að komast í 2:0. Við unnum leikinn en dómararnir kostuðu okkur tvö stig í dag. Þetta var grín,“ sagði Austin, sem er hlynntur því að myndbandsdómarar komi inn í enska boltann.

„Það er verið að tala um myndbandsdómara. Við spilum í bestu deild í heimi og dómararnir þurfa hjálp, sagði Austin, en samkvæmt reglum ensku deildarinnar eiga leikmenn og þjálfarar ekki að gagnrýna dómara. Austin sleppur því með skrekkinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert