Juventus vill fá Pogba í janúar

Paul Pogba.
Paul Pogba. AFP

Ítölsku meistararnir í Juventus eru að undirbúa tilboð í franska miðjumanninn Paul Pogba og vilja fá hann til liðs við sig í janúar að því er ítalski netmiðillinn Tuttusport greinir frá.

Juventus er sagt reiðubúið að greiða 80 milljónir punda fyrir Pogba en hann fór frá liðinu til Manchester United fyrir tveimur árum fyrir 90 milljónir punda og varð dýrasti leikmaður heims um tíma.

Pogba hefur átt erfitt uppdráttar hjá Manchester United og er kominn út í kuldann hjá José Mourinho en Frakkinn hefur vermt varamannabekkinn í síðustu leikjum en fær að byrja inni á í kvöld með hálfgerðu varaliði United þegar það mætir Valencia í lokaumferð riðlakeppni Meistaradeildarinnar á Spáni í kvöld.

Samband Pogba og Mourinho á þessu tímabili hefur verið stormasamt og á dögunum sagði Mourinho að ástæða þess að hann hafi ákveðið að setja Pogba á bekkinn væri sú að hann þyrfti að spila með sama hugarfari og aðrir leikmenn liðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert