De Bruyne og Agüero gætu mætt Gylfa

Pep Guardiola ræðir málin við Sergio Agüero.
Pep Guardiola ræðir málin við Sergio Agüero. AFP

Tveir af bestu leikmönnum ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta, framherjinn Sergio Agüero og miðjumaðurinn Kevin De Bruyne, gætu verið klárir í slaginn hjá Manchester City fyrir leik liðsins á móti Everton í hádeginu á morgun.

Leikmennirnir eru búnir að vera frá vegna meiðsla að undanförnu. Agüero er búinn að missa af síðustu þremur deildarleikjum City, en hann er búinn að æfa sársaukalaust síðustu daga. De Bruyne er svo búinn að jafna sig á meiðslum sem hann varð fyrir í byrjun nóvember. 

„Þeir eru báðir búnir að æfa án þess að finna fyrir sársauka. Við sjáum til hvort þeir spili á morgun," sagði Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City á fréttamannafundi í dag.

Everton er eitt örfárra liða sem er ekki búið að tapa á móti City á útivelli síðan Guardiola tók við. Liðin eru búin að skilja jöfn á Etihad-vellinum í síðustu tveimur leikjum. 

„Við spiluðum vel en misstum samt af fjórum stigum. Lið Everton er mjög sterkt og með leikmenn eins og Gylfa Þór Sigurðsson, Richarlison og Yerry Mina. Liðið er búið að heilla mig," bætti Guardiola við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert