Klopp segir titla ekki skipta öllu

Jürgen Klopp.
Jürgen Klopp. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, segir að titlar skipti ekki öllu máli í knattspyrnu er lærisveinar hans undirbúa sig fyrir grannaslag gegn Manchester United í ensku úrvalsdeildinni á morgun.

José Mourinho, stjóri United, hefur talað um mikilvægi þess að vinna titla í aðdraganda leiks þessara erkifjenda en Portúgalinn hefur notið velgegni í starfi undanfarin ár og lyfti bæði enska deildabikarnum og Evrópudeildarbikarnum á sínu fyrsta tímabili með United. Á morgun þykir Liverpool þó sigurstranglegra liðið á Anfield enda á toppi deildarinnar, 16 stigum fyrir ofan United sem er í 6. sæti.

„Fólk man eflaust betur eftir titlunum en það sem ég þarf að gera er að gera það besta við það sem félagið lætur mig fá. Ef fólk segir að árangur okkar í Meistaradeildinni í fyrra var ekki góður vegna þess að við unnum ekki úrslitaleikinn þá get ég ekki breytt því. Við náðum ekki takmarkinu okkar en ferðalagið þangað var frábært, ég naut þess,“ sagði Klopp á blaðamannafundi.

Leikur Liverpool og United hefst klukkan 16 á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert