Of mikilvægur til að vera lánaður

Tom Davies og Gylfi Þór Sigurðsson fagna marki fyrir Everton.
Tom Davies og Gylfi Þór Sigurðsson fagna marki fyrir Everton. AFP

Marco Silva, knattspyrnustjóri Everton, segir að það komi ekki til greina að lána miðjumanninn unga Tom Davies í janúar, enda þótt hann hafi lítið fengið að spila á þessu keppnistímabili.

Davies, sem spilaði mikið á síðasta tímabili, hefur fengið takmörkuð tækifæri undanfarna mánuði þar sem André Gomes hefur bæst við hjá Everton og verið í stóru hlutverki á miðjunni. Davies gæti þó spilað gegn Manchester City í hádeginu í dag því óvíst er hvort Idrissa Gueye, varnartengiliðurinn öflugi, verði leikfær.

Silva sagði á fréttamannafundi í gær að Davies færi hvorki lönd né strönd. „Tom er hluti af okkar hópi, er mér afar mikilvægur og fyrir félagið. Hann er einn af okkar framtíðarmönnum," sagði Silva en hinn tvítugi Davies hefur spilað 65 úrvalsdeildarleiki fyrir Everton frá því hann kom fyrst inn í liðið fyrir þremur árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert