Látinn svara fyrir lærlingsummælin

Neil Warnock vildi sjá betri frammistöðu hjá óreyndum dómara leiks …
Neil Warnock vildi sjá betri frammistöðu hjá óreyndum dómara leiks Cardiff og Watford. AFP

Neil Warnock, knattspyrnustjóri Arons Einars Gunnarssonar hjá Cardiff, hefur verið krafinn um skýringar vegna ummæla sinna um dómarann Andrew Madley um helgina.

Enska knattspyrnusambandið virðist óánægt með ummæli Warnock, eftir 3:2-tapið gegn Watford á laugardag, þegar hann kvartaði sáran yfir því að reynslulítill dómari skyldi látinn dæma leikinn. Andy Madley dæmdi þarna sinn fyrsta leik í ensku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð, en hann dæmdi sinn fyrsta og eina leik í deildinni í mars á síðustu leiktíð.

„Ég skil ekki hvers ­vegna þeir létu Andre Marrin­er vera fjórða dóm­ara og dóm­ara sem ekki hafði dæmt allt tíma­bilið stjórna leikn­um. Nema kannski að það megi vegna þess að við erum Car­diff og þá er allt í lagi að senda lær­ling á leik­inn,“ sagði Warnock meðal annars við BBC, en hann var sérstaklega óánægður með að Troy Deeney slyppi við refsingu fyrir að tækla markvörðinn Neil Etheridge í leiknum.

Ekki er ljóst hvort Warnock á yfir höfði sér refsingu fyrir ummæli sín en hann hefur í það minnsta verið beðinn um að varpa frekara ljósi á þau.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert