Dýrt fyrir United að reka Mourinho

José Mourinho.
José Mourinho. AFP

Það mun kosta Manchester United drjúgan skildinginn ef sú ákvörðun verður tekin að reka knattspyrnustjórann José Mourinho úr starfi.

United mundi þurfa að greiða Portúgalanum 24 milljónir punda en sú upphæð jafngildir um 3,7 milljörðun íslenskra króna. Mourinho framlengdi samning sinn við Manchester United í janúar á þessu ári.

Stjórn Manchester United hefur ekki uppi nein áform um að reka Mourinho í bráð en haldi slakt gengi liðsins áfram mun hún væntanlega endurskoða ákvörðun sína.

Stjórnin beið með það þar til United átti ekki lengur möguleika á að ná einu af fjórum efstu sætunum í deildinni að reka David Moyes og sama var uppi á teningnum varðandi Louis van Gaal.

Eftir 17 umferðir er Manchester United í sjötta sæti deildarinnar og er 11 stigum á eftir Chelsea sem er í fjórða sætinu og 19 stigum á eftir toppliði Liverpool. Næsti leikur United er á laugardaginn en þá sækir það Aron Einar Gunnarsson og félaga hans í Cardiff heim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert