Höfnuðu risatilboði frá United

Kalidou Koulibaly í leik með Napoli.
Kalidou Koulibaly í leik með Napoli. AFP

Ítalska knattspyrnuliðið Napoli hafnaði risatilboði Manchester United í miðvörðinn Kalidou Koulibaly að sögn stjórnarformanns félagsins, Aurelio De Laurentiis.

Koulibaly, sem er 27 ára gamall Senegali, hefur stimplað sig inn sem einn af bestu varnarmönnum í Evrópuboltanum í dag og hafa mörg stórliðið sýnt honum áhuga.

Aurelio De Laurentiis greindi fréttamönnum frá því í gær að Napoli hafi hafnað tilboði frá Manchester United í leikmanninn. „José Mourinho vildi frá hann en við höfnuðum 95 milljón punda tilboði í hann. Það kemur ekki til greina að hann fari frá okkur,“ sagði stjórnarformaðurinn.

Mourinho reyndi ítrekað að fá stjórn Manchester United til fjárfesta í nýjum varnarmönnum í sumar en án árangurs en nú er Mourinho farinn frá Manchester-liðinu en Portúgalinn fékk reisupassann í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert