Derby henti Southampton út í vítakeppni

Martyn Waghorn fagnar jöfnunarmarki sínu í venjulegum leiktíma fyrir Derby …
Martyn Waghorn fagnar jöfnunarmarki sínu í venjulegum leiktíma fyrir Derby gegn Southampton í kvöld. AFP

Enska B-deildarliðið Derby er komið áfram í 4. umferð ensku FA-bikarkeppninnar í knattspyrnu eftir að hafa slegið úrvalsdeildarlið Southampton úr leik í kvöld. Grípa þurfti til vítaspyrnukeppni til þess að fá fram úrslit.

Liðin skildu jöfn í 3. umferðinni á dögunum, 2:2, og þurftu því að mætast aftur. Derby komst yfir í fyrri hálfleik í kvöld, eða svo héldu flestir, en eftir langa skoðun á myndbandsupptöku var markið dæmt af vegna rangstöðu. Markalaust í hálfleik.

Southampton skoraði svo tvö mörk á þriggja mínútna kafla um miðjan síðari hálfleikinn. Fyrst Stuart Armstrong á 68. mínútu og svo Nathan Redmond á 70. mínútu. Derby gafst þó ekki upp. Harry Wilson minnkaði muninn tæpum stundarfjórðungi fyrir leikslok og Derby jafnaði svo á 82. mínútu með marki Martin Waghorn. Staðan 2:2 eftir venjulegan leiktíma og framlengingu, svo gripið var til vítaspyrnukeppni.

Eftir að bæði lið skoruðu úr fyrstu spyrnum sínum var það hins vegar Nathan Redmond, markaskorarinn frá því fyrr í leiknum, sem brenndi af annarri spyrnu Southampton. Á meðan skoraði Derby úr öllum sínum spyrnum og hrósaði sigri.

Derby mætir C-deildarliði Accrington í næstu umferð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert