Leeds njósnaði um alla andstæðinga

Marcelo Bielsa, knattspyrnustjóri Leeds.
Marcelo Bielsa, knattspyrnustjóri Leeds. AFP

Það vakti mikla athygli á dögunum þegar í ljós kom að njósnari frá Leeds hefði verið gripinn af lögreglu fyrir utan æfingasvæði Derby fyrir toppslag liðanna í ensku B-deildinni í knattspyrnu. Nú hefur þetta mál tekið nýja stefnu.

Forráðamenn Leeds höfðu áður beðið Derby afsökunar en Marcelo Bielsa, knattspyrnustjóri Leeds, boðaði óvænt til blaðamannafundar í dag. Hann sagðist þá vilja gera út um hið svokallaða „njósnamál“ eins og hann orðaði það, en staðfest hefur verið að enska knattspyrnusambandið muni hefja rannsókn á málinu.

Í upphafi fundarins í dag las Bielsa upp yfirlýsingu sem kom viðstöddum nokkuð á óvart. Þar kom meðal annars fram að hann hefði sent njósnara á vegum Leeds til þess að fylgjast með öllum liðum deildarinnar áður en Leeds spilaði við þau. Var hann því með augu á öllum æfingum andstæðinga fyrir leiki.

„Ég hef þegar sagt að ég tek alla ábyrgð á þessu, en ég hafði ekkert illt í hyggju. Þegar fylgst er með andstæðingum reynir maður að komast að byrjunarliðinu og hvernig skipulag þess er til þess að reyna að bregðast við því. Ég er greinilega ekki orðinn kunnur hefðinni í fótboltanum á Englandi, en það sem ég hef gert er ekki ólöglegt og ekki brot á neinum lögum,“ sagði Bielsa.

Leeds er á toppi ensku B-deildarinnar og á góða möguleika á því að tryggja sér sæti í ensku úrvalsdeildinni á næsta tímabili. Ekki er vitað hvort þetta mál muni draga dilk á eftir sér fyrir félagið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert