Framlengir við Liverpool til 2024

Andrew Robertson fagnar með Liverpool.
Andrew Robertson fagnar með Liverpool. AFP

Enska knattspyrnufélagið Liverpool færði stuðningsmönnum sínum gleðifréttir í dag þegar tilkynnt var að bakvörðurinn Andrew Robertson hefði skrifað undir nýjan langtímasamning við félagið.

Robertson hefur skotist hratt upp á stjörnuhimininn, en þessi 24 ára gamli skoski bakvörður var að spila í þriðju deildinni í Skotlandi árið 2012. Hann fór til Hull árið 2014 en var keyptur til Liverpool árið 2017. Þar hefur hann slegið í gegn og er nú verðlaunaður með nýjum samning.

Robertson hefur komið við sögu í 19 leikjum í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu og verið einn traustasti leikmaður liðsins sem situr á toppi deildarinnar. Þá á hann að baki 28 landsleiki fyrir Skota.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert