Leeds kaupir markvörð frá Real Madrid

Kiko Casilla með treyju Leeds United.
Kiko Casilla með treyju Leeds United. Ljósmynd/Leeds United

Leeds United, toppliðið í ensku B-deildinni í knattspyrnu, hefur gengið frá kaupum á spænska markverðinum Kiko Casilla.

Casilla er 32 ára gamall og kemur til Leeds frá Evrópumeisturum Real Madrid. Hann skrifaði undir fjögurra og hálfs árs samning við Leeds, sem er með fjögurra stiga forskot á Sheffield United í toppsæti B-deildarinnar.

Casilla hóf sinn feril með Real Madrid. Þaðan fór hann til Espanyol árið 2007 og var síðan lánaður til Cádiz og Cartagena. Hann varð svo aðalmarkvörður Espanyol og með frammistöðu sinni þar fékk hann tækifæri með landsliðinu og spilaði einn leik í nóvember 2014. Eftir tímabilið 2014-15 sneri hann aftur til Real Madrid og síðustu þrjú ár hefur hann spilað 43 leiki með Real Madrid í öllum keppnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert