Huddersfield að næla í þjálfara Dortmund

Huddersfield er í vondum málum í ensku úrvalsdeildinni.
Huddersfield er í vondum málum í ensku úrvalsdeildinni. AFP

Allar líkur eru á því að Jan Siewert verði næsti knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarliðsins Huddersfield. Siewert er þjálfari varaliðs Dortmund, eins og David Wagner var áður en hann tók við Huddersfield. Wagner hætti með liðið á dögunum. 

Að sögn þýska dagblaðsins Bild borgar Huddersfield um 300.000 evrur fyrir þjónustu Siewert. Forráðamenn Huddersfield greindu frá á dögunum að eftirmaður Wagner yrði ekki staðfestur fyrr en eftir leik liðsins við Manchester City á sunnudag. 

Huddersfield hefur ekki unnið í síðustu tíu leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni og er liðið átta stigum frá öruggu sæti þegar 16 leikir eru eftir. Varaliðsþjálfarar Dortmund eru hrifnir af því að færa sig til Englands. Daniel Farke, knattspyrnustjóri Norwich, var varaliðsþjálfari Dortmund áður en Siewert tók við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert