Sá gamli mætir Salah og félögum

Mohamed Salah verður í eldlínunni á morgun.
Mohamed Salah verður í eldlínunni á morgun. AFP

Hinn 39 ára gamli Julian Speroni mun standa á milli stanganna í marki Crystal Palace á morgun þegar liðið sækir topplið Liverpool heim í ensku úrvalsdeildinni.

Markverðirnir Vicente Guaita og Wayne Hennessey eiga báðir við meiðsli að stríða og Speroni þarf því að draga fram hanskana og reyna að koma í veg fyrir að leikmenn eins og Mohamed Salah, Roberto Firmino og Sadio Mané skori í leiknum.

Speroni, sem er Argentínumaður, mun þá spila sinn fyrsta leik í ensku úrvalsdeildinni frá því í desember 2017.

Liverpool er ósigrað á heimavelli 31 leik í röð í deildinni en liðið tapaði síðast á Anfield í apríl 2017 og það gegn Crystal Palace.

Fyrir leikina í 23. umferðinni sem hefst á morgun er Liverpool með fjögurra stiga forskot á Manchester City, sem sækir botnlið Huddersfield heim á sunnudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert